Leikskólinn

Leiðarljós leikskólans: Að í Sunnuási ríki virðing fyrir einstaklingnum og umhverfinu,sjálfræði, sköpun og leikgleði.

Einkunnarorð leikskólans eru:  Virðing - Gleði - Sköpun

Leiðarljós okkar í Sunnuási er að þar ríki virðing fyrir einstaklingnum og umhverfinu, sjálfræði, sköpun og gleði.
Við leggjum áherslu á að virða tilfinningar og skoðanir hvers barns og efla með þeim samkennd, tillitssemi og umhyggju gagnvart öðrum.
Með því að skapa viðurkennandi umhverfi og útfæra leikskólastarfið þannig að öll börn geti tekið þátt í því á sínum forsendum og á jafnréttisgrundvelli, ríkir jafnrétti innan leikskólans.
Við höfum þá sýn að einstaklingurinn sé virkur allt frá fæðingu og tilbúinn að takast á við lífið.
Leikurinn er kjarninn í starfi leikskólans og í Sunnuási er leitast við að hafa fjölbreytt úrval verkefna og leikumhverfi við hæfi allra barna og að verkefni og umhverfi hvetji börnin til sköpunar, leitun lausna og hvata til að rannsaka.
Frelsið til að leika sér og upplifa þá gleði sem leikurinn gefur eflir bæði andlega og líkamlega líðan barnsins.
Gegnum leikinn þroska börnin með sér félagsfærni og samskiptahæfni og læra að leysa deilur og ágreining á jákvæðan hátt.
Börnin eru sérfræðingar í sínum eigin tilfinningum, þau spyrja spurninga, reyna að átta sig á sjálfum sér,tilverunni og samspilinu þarna á milli.
Sköpunarkraftur er öllum gefinn en við erum mis meðvituð um þá möguleika sem hann opnar fyrir okkur.
Hæfni barnsins í að „lesa“ sjálft sig og tilveruna er virkjuð svo það þori að tjá sínar tilfinningar og skoðanir.
Stefna Sunnuáss er sú að börnin útskrifist sem frjálsir skapandi einstaklingar með sjálfstæðar skoðanir og góða og sterka sjálfsmynd.

Prenta | Netfang