Berit Bae hefur um langt skeið helgað sig menntun leikskólakennara í Noregi. Hún hefur unnið að rannsóknum á samskiptum barna og fullorðinna í leikskólum og skrifað fjölmargar bækur og greinar um það efni. Hún hefur sett fram hugmyndir sínar um grundvallaratriði sem þurfa að vera til staðar í uppbyggjandi samskiptum við börn og hefur verið ötull talsmaður þess að markmið leikskóla taki mið af sjónarhorni barnanna. Í rannsóknum sínum gengur hún út frá eftirfarandi hugtökum til þess að varpa ljósi á það sem gerist í samskiptum.

 Nálægð: Nálægð er forsenda viðurkenningar.Taka á móti einstaklingum opnum huga, sýna skilning börnum, foreldrum og samstarfsfólki.                        

Viðurkenning: Viðurkenna börn eins og þau eru, þau eru sérfræðingar í sínum tilfinningum. Þau hafa rétt á sinni skoðun. Virk hlustun. Horfa á það óyrta sem yrta í tjáningu þeirra. Viðurkenning veitir einstaklingnum gildi.

Staðfesting: Hugtakið staðfesting er eitt þeirra fyrirbæra sem leiða til viðurkenningar. Barn fær staðfestingu á að upplifun þess hafi gildi og sé réttmæt frá leikskólakennara. Þannig fær barnið staðfestingu á því fyrir hvað það stendur þegar það fær viðbrögð til baka. Bae telur að börnin leiti eftir staðfestingu varðandi hegðun sína og gjörðir. Ef staðfestingin er ekki viðurkennandi getur hún leitt til bindingar

Skilgreiningarvald / Binding: Skilgreiningarvald vísar til þess að fullorðinn er í valdastöðu gagnvart barninu. Skilgreiningarvald grefur undan sjálfsvirðingu og sjálfstrausti barns. Ósjálfstætt barn verður háð áliti og skoðunum hins fullorðna sem veldur bindingu.

Ígrundun / Aðgreining: Þekkja eigin tilfinningar og skoðanir. Hvað er mitt og hvað er þitt. Skoðun barns, skoðun fullorðins, ný hlið. Forðast hér og nú viðbrögð.

Þar sem leikskólinn vinnur samkvæmt kenningum Beritar Bae um viðurkennandi samskipti er lögð áhersla á að virða tilfinningar og skoðanir hvers barns og efla með þeim samkennd, tillitssemi og umhyggju gagnvart öðrum. Kenningarnar varða þannig veginn fyrir starfsfólk að skapa viðurkennandi umhverfi þar sem hver og einn gefur og þiggur á jafnréttisgrundvelli.

 Litið er á kenningar Beritar Bae sem leið leikskólans til að gera Barnasáttmálann sýnilegan.                        Eins og fram kemur um kenningar um samskipti leggjum við áherslu á að börnin hafi val um viðfangsefni sín og geti haft áhrif á umhverfi sitt og beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.